Í fortíð og nútíð

Tímaritið Heima er bezt hóf göngu sína í marsmánuði árið 1951, og var þá gefið út af Bókaútgáfunni Norðra, en það var fyrirtæki sem var eign Sambands íslenskra samvinnufélaga. Fyrsti ritstjóri blaðsins var Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður, sem reyndar sinnti því starfi stutt, því hann ritstýrði blaðinu einungis fyrsta útgáfuár þess. Við ritstjórninni af Vilhjálmi tók síðan Jón Björnsson rithöfundur, og hafði hann ritstjórnina á hendi í fjögur ár.
Þó þarna væru valinkunnir menn við stýrið tók að halla undan fæti hjá blaðinu, því ekki tókst að afla því þeirrar útbreiðslu að það bæri sig. Þróuðust mál þannig að Sigurður O. Björnsson, þáverandi forstjóri Prentverks og Bókaforlags Odds Björnssonar á Akureyri, fékk áhuga á að spreyta sig á útgáfu blaðsins og gera tilraun til þess að auka útbreiðslu þess. Keypti hann því ritið og flutti það norður um áramótin 1955-56. Réði hann Steindór Steindórsson frá Hlöðum, náttúrufræðing og þáverandi kennara við Menntaskólann á Akureyri, sem ritstjóra blaðsins. Munu þeir hafa hugsað þá ráðningu til bráðabirgða í fyrstu, en svo fór að Steindór stýrði ritinu næstu 32 árin eða til ársins 1988. Verður það að teljast með miklum ágætum og segir það sig sjálft að mjög hefur ritið mótast af ritstjórn Steindórs, og hafa menn reyndar leitast við æ síðan, að halda sig á svipuðum nótum og lengstum hefur verið tíðkað í útgáfusögu blaðsins.
Þegar Steindór hætti ritstjórn þess, m.a. af heilsufarsástæðum, tók við séra Bolli Gústavsson, þá prestur í Laufási í Eyjafirði og ritstýrði því frá janúar 1989 til ágúst 1991. Bolli tók það einmitt fram í sínum fyrsta ritstjórnarpistli, að ekki ætlaði hann að víkja langt af þeim vegi, sem hinn farsæli ritstjóri, forveri hans, hafði markað, og ætlaði hann ritinu að halda áfram að gegna því hlutverki að vera "þjóðlegt heimilisrit."
Að tíma Bolla loknum hjá blaðinu, frá september 1991, ritstýrði því Geir S. Björnsson, prentsmiðjustjóri, til maí mánaðar 1992, er blaðið skipti um eigendur. Þá keypti það bókaútgáfan Skjaldborg í Reykjavík, og fór því ritið aftur suður yfir heiðar, þar sem það hefur verið síðan.
Við ritstjórn þess þá tók Guðjón Baldvinsson og hefur stýrt því síðan.
Skjaldborg gaf ritið út samfellt í 10 ár en eftir það var það eitt ár í eigu
almannatengslafyrirtækisins Athygli ehf., en er nú í eigu útgáfufélagsins Umgerðar ehf.
Þegar Heima er bezt hóf göngu sína 1951, höfðu útgefendur þess markað því nokkuð ákveðna stefnu um efnisval og hlutverk. Þeir vildu leggja megináherslu á að segja frá lífsbaráttu fólksins í landinu til sjávar og sveita, fyrrum og nú, einnig hugðarefnum þess, tómstundaiðkunum og andlegum íþróttum, og flytja fyrst og fremst sannar frásagnir um líf og starf fólksins, afrek þess í verklegum og andlegum efnum, svo og sannar sagnir um afburða menn á ýmsum sviðum. Einnig ferðasögur, lýsingar á sveitum, kauptúnum
og kaupstöðum, atvinnutækjum og framkvæmdum, svo og kveðskap, sagnir af dýrum og sambúð manna við þau og mörgu fleira. Nafn ritsins sögðu þeir einnig að fæli að nokkru í sér stefnu þess. Ritið átti að byggja framtíð sína og tilveru á þjóðlegu efni. Með öðrum orðum, því var ætlað að verað þjóðlegt heimilisrit og vettvangur ritfærra alþýðumanna, kvenna sem karla, sem eitthvað vildu láta til sín heyra.
Þessari stefnuskrá ritsins hefur verið haldið nánast óbreyttri allan útgáfutíma þess, eða síðastliðin 56 ár. Má af því ráða að lesendur og útgefendur blaðsins hafa þarna hitt á sameiginlegan streng, sem alla tíð hefur haldið og hefur verulegur hluti áskrifenda blaðsins jafnan haldið tryggð við það árum og jafnvel áratugum saman, og hefur það ekki haft svo lítið að segja varðandi framgang þess.
Það er eitt höfuð einkenni þess efnis sem birt er í blaðinu að það er oft á tíðum nánast sígilt, það er ekki síður hægt að lesa það sér til ánægju og fróðleiks þó 50 ár séu liðin frá því það var skrifað. Það eykur jafnvel bara gildi þess. Og efnistök blaðsins hafa einmitt orðið til þess að ýmsir hafa séð sér akk í því að nota það sem heimild og upplýsingar um ýmisleg efni.
Heimildagildi Heima er bezt er enda orðið geysimikið og munu t.d. nærri 600 svokölluð forsíðuviðtöl hafa birst í blaðinu við jafn marga einstaklinga á árabilinu 1951-2002, og það segir sig sjálft að þó annað efni væri undanskilið þá liggur bara í þessum viðtölum geysimikið magn upplýsinga og fróðleiks, sem tæplega er annars staðar að finna í sama mæli. Blaðið hefur einnig fylgt þeirri stefnu að taka ekki síður viðtöl við "venjulegt fólk,"
eins og stundum er sagt með réttu eða röngu, það er fólk, sem ekki er endilega á hverjum degi í blaðaviðtölum, eða að öðru leyti áberandi í fjölmiðlum. Þessi viðtöl hafa sýnt á ýmsan hátt, breiðari þverskurð en oft gerist, af lífi fólks í landinu, fyrr og síðar.
Það hefur verið eitt einkenni efnistaka blaðsins, að verulegur hluti þess hefur verið skrifaður af sjálfum lesendum þess. Hefur það enda verið því mikill stuðningur og hefur skapað því fjölbreytt og fróðlegt efni. Hafa þannig birst í því margar frásagnir, sem hafa mikið heimildagildi, eins og áður segir. Er þar um að ræða frásagnir af atburðum, vinnubrjögðum, búskaparháttum, ferðalögum og mörgu fleira, sem mun gefa komandi kynslóðum færi á að kynnast og fræðast um líf forfeðra þeirra á þessu landi okkar.
Sem dæmi um gildi slíkra frásagna er nærtækast að taka viðtal það sem fyrsti ritstjóri blaðsins tók við Guðbjörgu Guðbrandsdóttur, sem fædd var árið 1876, þar sem hún segir frá því er faðir hennar varð, er móðir hennar lést af barnsburði, að láta tvö börn sín, Guðbjörgu þá 5 ára og bróður hennar, frá sér fara á sveitina, eins og það var nefnt, sem varð upphaf hrakningasögu hennar. Eða eins og hún orðar það sjálf:
"Mér var varpað út í harða veröld, einmana og óstudd, málsvarslaus, á miskunn ókunnugra."
Þetta er ekki ólíklegt að mörgu yngra fólki í dag hljóti að þykja með ólíkindum og vera hálfgerð þjóðsaga. En svona var nú lífið meðal annars á okkar ágæta landi, á meðan fátæktin og stéttaskiptingin var í algleymi. Þessa frásögn geymir Heima er bezt vel og dyggilega, komandi kynslóðum til upplýsingar og umhugsunar, og margar fleiri, er lúta að lífi og kjörum íslenskrar alþýðu í gegnum ár og aldir.
Heima er bezt er rit fyrir alla þá sem unna þjóðlegum fróðleik um fólk og atburði, kveðskap, söguritun og sagnalist.
Tímarit um fólkið, lífið og söguna.
Áskrift er tilvalin gjöf fyrir alla fróðleiksþyrsta.
Útgefandi:
Umgerð ehf. Jöklafold 22, 112 Reykjavík
Sími: 553 8200
Ritstjóri: Guðjón Baldvinsson