"ÞVÍ LUNDINN ER LJÚFASTUR FUGLA" (söng Ási í bæ)

Lundi er algengastur fugla á Íslandi og telur um 10 milljónir.

Talið er að í Vestmannaeyjum séu um 4 milljónir lunda. Einkennilegt útlit hans og skrautlegt nef gerir hann auðþekktan frá öllum öðrum íslenskum fuglum. Lundi er einkvænisfugl og heldur tryggð við maka sinn og „heimabyggð" ævilangt, þau endurnýja „hjúskap sinn" hvert vor, þegar þau hittast við hreiðurholuna sem þau grafa með nefi og löppum. Göngin geta verið allt að 1,5 m. inn í grösugar brekkur upp af björgum . Um miðjan apríl fara fyrsu lundarnir að sjást við Eyjar en í byrjun maí „taka þeir heima" fyrir alvöru. Eru það einkum kynþroska fuglar sem fyrstir koma. Frá því að þeir yfirgáfu „byggðina" síðast, eru liðnir sjö mánuðir. Allan þann tíma hefur fuglinn haldið sig á hafi úti langt fyrir sunnan og suðaustan land. Yngri fuglinn þvælist víða og er m.a. uppi undir ströndum Nýfundnalands.

Aðalvarptíminn hefst um 20. maí og stendur fram í fyrstu viku júní.

Útungunartíminn er u.þ.b. sex vikur og líða svo sex til sjö vikur frá því að pysjan kemur úr eggi og þar til hún yfirgefur hreiðrið.  Báðir foreldrarnir sjá um uppeldið svo og um að veiða í ungann. Koma þau að jafnaði tíu sinnum á dag með 4 - 20 sandsíli eða fiskseiði í goggnum hverju sinni. Um sama leyti og annir hefjast hjá sílisfuglinum (foreldrunum) um mánaðarmótin júní- júlí, bætist geldfuglinn í hópinn. Þegar vindur er, flýgur geldfuglinn með brúnum bjargsins og niður undir sjó. Getur þetta hringflug varað lengi dags. Lundi með æti flýgur aftur á móti ávallt stystu leið heim í holu til að forðast ræningja, svo sem kjóa, skúm, og máv.

Þegar skyggja fer í ágúst fara fyrstu pysjurnar að yfirgefa holurnar og leita til sjávar. En ljósin í kaupstaðnum freista þeirra og hundruðum saman fljúga þær veikum vængjum á vit ljósanna í kaupstaðnum og þar kemur í ljós að fleirum en mannfólkinu hefur orðið dýrkeypt að látast glepjast af ljósadýrð og glysi borganna, því það sem mætir pysjunni við lendingu eru harðar götur og gangstéttar ellegar dimmir húsagarðar og stundum eru kettir á sveimi í veiðihug . En pysjurnar eiga sér sína bandamenn þarna í þessum malbiksfrumskógi. Hvarvetna um bæinn eru hjálpfúsar hendur barna sem hafa það fyrir stafni að kvöldlagi í ágústmánuði að fara um bæinn með pappakassa og safna þeim pysjum sem villst hafa af réttri leið. Ekki er óalgengt að afrakstur kvöldsins hjá hverjum „veiðimanni" sé u.þ.b. tíu pysjur og stundum meira. Um nóttina fá pysjurnar svo gistingu í mannheimum en árla morguns eru krakkar enn á fótum því nú á „að sleppa". Þá er farið með kassana niður í fjöru pysjurnar teknar ein af annarri og þeim sveiflað styrkum höndum hátt á loft, þannig að þær grípa flugið á vit frelsisins úti á sjónum.

 

Lundi (Fratercula artica):

Hæð: um 20 cm

Þyngd: um 500 gr.

Bæði kynin : Eins

Meðal aldur: 25 ár

Flughraði: 80 km

Meðal köfunardýpi: 10 m

Mesta köfunardýpi: 60 m

Tími í kafi: 3 - 40 sek.

Fjöldi eggja: 1

Stærð eggja: 6.3 x 4. 5 cm ( á stærð við hænuegg )

Litur eggja: Hvítur með brúnleitum yrjum

Verpir í fyrsta sinni: 5 til 6 ára gamall

Útungun: 40 dagar

Unginn yfirgefur hreiðrið: um 45 daga gamall

 

Elsti lundi sem vitað er um var 35 ára þegar hann var veiddur í lundaháf í Suðurey Vestmannaeyjum 18. júlí 1996. Lundanum var sleppt aftur sama dag.

Fuglinn var merktur af Óskari J. Sigurðssyni vitaverði í Stórhöfða sem merkt hefur fleiri lunda enn nokkur annar einstaklingur. Frá 1953 hefur Óskar merkt rúmlega 45.000 lunda.

Lundinn (Fratercula arctica) tilheyrir einnig ætt svartfugla og í sumum löndum er hann kallaður trúður háloftanna þar sem hann er mjög klaufalegur ásýndar á flugi. Lundinn er aftur á móti mjög flinkur kafari og hafa rannsóknir við útibú Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum varpað nýju ljósi á köfunarhæfni lundans.

Lundi með DST-merki

Með því að festa svokölluð DST-rafeindamerki við bak lundans var meðal annars hægt að mæla nákvæmlega hve djúpt lundi kafar, hve oft og hve lengi hann kafar í senn.

 

 

Einnig var hægt að áætla hraðann á lundanum niður á mesta dýpi og upp aftur. Eldri rannsóknir hafa sýnt að lundi getur kafað niður á allt að 60 m dýpi og verið í kafi í yfir 110 sek. Rannsóknirnar við Vestmannaeyjar staðafesta þetta, því mesta skráða dýpi með rafeindamerkjunum var 57 m og lengsta köfunin stóð yfir í 108 sek.

 

Flestar köfunarferðir lundans ná þó ekki niður á 40 m. Þegar fuglinn er í varpi heldur hann sig vanalega innan við 2-3 km radíus frá varpstöðvunum og eru þá flestar köfunarferðir hans niður á 5 til 10 m og standa yfir í 20 til 60 sek. Þegar lundinn er í fæðuöflun úti á sjó eyðir hann um 38% tímans undir yfirborði sjávar og er tíðni köfunarferða um 1 ferð/mín. Köfunarhraðinn getur farið yfir 5 km/kls í þessum ferðum sem er ótrúlegur hraði miðað við stærð lundans. Það sem að ræður mestu um köfunardýpi lundans er lóðrétt útbreiðsla fæðunnar sem er að mestu leyti sandsíli (Ammodytes tobanius).

Þrátt fyrir að hæfileikar lundans sem kafara séu miklir geta bæði langvía (Uria aalge) og álka (Alca torda) kafað enn dýpra og lengur. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að álkan geti farið niður á 140 metra og langvían 180 m (tafla 1). Þetta eru ótrúlegar tölur þar sem að raunþrýstingur á 180 m dýpi í sjó er 19,5 kg/cm2 eða 290 psi (þrýstingurinn eykst um 1 kg/cm2 fyrir hverja 9,75 m sem fuglinn fer niður).

Lítið er vitað um það hvernig svartfuglar þola svona mikið dýpi en þrýstingurinn á 180 m veldur því að rúmmál lungnanna minnkar og verður aðeins um 1/20 af rúmmáli við yfirborðið. Rannsóknir á mörgæsum benda til þess að þær meðal annars loki fyrir blóðflæði til vefja, þannig að einungis allra nauðsynlegustu vefir fá súrefni, eins og til dæmis heilinn og hjartað (Kooyman og Poganis 1994). Með þessu móti getur fuglinn einnig kafað mun lengur og um leið minnkað líkurnar á uppsöfnun köfnunaefnis í blóðinu.